Sjómenn fá ekki að kjósa nema að þeir lendi í stórslysi!

Ég hef barist kröftulega fyrir því, að ég sem sjómaður og frambjóðandi til stjórnlagaþings fái að nýta kosningaréttinn minn í kosningum til stjórnlagaþings. Nú stefnir allt í að ég muni komast á kjörstað og geta sett númerið mitt 3029 efst á blað.

Hvað breyttist? – Jú, enn og aftur erum við sjómenn minntir á hversu hættulega vinnu við stundum, því það varð hræðilegt vinnuslys um borð í hjá okkur í dag og því erum við á leið í land til að koma slösuðum sjómanni undir læknishendur sem fyrst. Það er ansi dýr verðmiði á kosningarétt!

Í áhöfn eru 26 menn, en aðeins ég einn fæ leyfi til að kjósa. Við komum í land á Þingeyri, í Ísafjarðarbæ, en ég er sá eini um borð sem hef lögheimili í Ísafjarðarbæ og því sá eini sem get notað atkvæðisrétt minn. Haft var samband við sýslumann og óskað eftir því að öll áhöfnin fái að kjósa utnakjörfundar, en því var hafnað á þeim forsendum að 17 daga utankjörfundaratkvæðisgreiðslu væri lokið og að ekki hafi verið útbúin rafræn kosningaskrá.

Því verður restin af áhöfninni að horfa á eftir mér einum inn í kjörklefann að þessu sinni. Lýðræðislegur réttur minn er greiniega meiri enn þeirra.

Vinnubrögð og framkvæmd kosninganna eru Íslandi til skammar!

Það eru forrréttindi að fá að kjósa á Íslandi í dag. Því ætla ég að biðla til ykkar, kæru Íslendingar, að virða þau réttindi, mæta á kjörstað og kjósa, lýðræðisins vegna. Látið það ekki fréttast að þið ætlið ekki að nýta kosningarétt ykkar á meðan við sjómenn þurfum að koma stórslasaðir í land til að geta nýtt kosningarétt okkar!

Að lokum vil ég senda mínar bestu kveðjur til skipsfélaga míns og vona að hann jafni sig fljótt og örugglega.

Með Bestu Kveðju,
Eyþór Jóvinsson
frambjóðandi númer 3029
www.jovinsson.is


Verða kosningarnar kærðar?

Þá er það orðið ljóst, utankjörfundaratkvæðisgreiðslu er lokið, án þess að mál sjómanna hafi verið leyst eða tilraun til þess gerð. Blindum var bjargað á meðan sjómenn þurfa að sitja hjá við atkvæðisgreiðslu til stjórnlagaþings.

Það er óhjákvæmliegt að þessar kosningar verði kærðar og dæmdar ógildar vegna mannréttindabrota. Ég ætla ekki að leggja fram kæru það sem það gæti orkað tvímælis vegna framboðs míns, en ég tel allar líkur á því að aðrir sjómenn muni taka sig saman og kæra framkvæmd kosninganna og fá hana dæmda ólöglega.

Frá mínum bæjardyrum lítur málið svona út:

Í utankjörfundaratkvæðisgreiðslu til alþingiskosninga er ávalt miðað við átta vikur, á meðan í kosningum til stjórnlagaþings voru rúmar tvær vikur, að því er virðist ekki af neinni augljósri ástæðu.

Margir sjómenn eru í 30-40 daga túrum og get því ekki kosið. Þegar ég legg af stað í þá veiðiferð sem ég er í nú, voru kjörgögn ekki tilbúin og það var ekki einu sinni ljóst hverjir væru í framboði, því framboðslisti var ekki orðin klár. Því var augljóslega með öllu ómögulegt að kjósa áður en veiðiferðin hófst.

Skipstjórinn hefur reynt að fá svör um hvernig hann skuli bera sig að til að áhöfnin geti notað kosningarétt sinn, en einu svörin sem hann hefur fengið er þau að hann verði að hætta veiðum og sigla skipinu í land, þar geta sjómenn kosið. En það er hægara sagt enn gert, að loka heilum vinnustað, hætta veiðum og sigla í land, við það tapast dýrmætur tími sem nýtist ekki til veiða.

Ef við hefðum siglt í land hefði líklegast tapast heill sólahringur á veiðum með tilheyrandi tekjutapi fyrir áhöfn og útgerð. Það hefði því kostað hvern háseta um borð á bilinu 50-100 þúsund krónur í tekjutap ef ákveðið hefði verið að mæta á kjörstað. Hve góð ætli kjörsókn í landi væri ef að hver kjósandi þyrfti að greiða 50 þúsund krónur fyrir að fá að nota atkvæðisrétt sinn? – Það væri kannski hægt að rétt við ríkisreksturinn með reglulegum kosningum.

Lausnin er grátlega einföld, það er að tryggja að utankjörfundaratkvæðisgreiðsla sé nægilega löng til að allir íslendingar geti tekið þátt í lýðræðislegum kosningum. Viljum við í alvöru byrja nýtt upphaf á þennan veg, að gefa ekki öllum tækifæri á að taka þátt í gerð á nýrri stjórnarskrá. – Hverskonar stjórnarskrá verður það?

Þá held ég að það sé einsdæmi í vestrænu lýðræðislegusamfélagi að frambjóðandi hafi ekki rétt til að kjósa. En nái ég kjöri á stjórnlagaþings, mun ég beita mér af öllum kröftum um að allir íslendinar séu jafnir fyrir lögum, hafi sömu réttindi í hvívetna, burt séð frá fötlun, starfsvettvangi eða af öðrum ástæðum

Eyþór Jóvinsson
frambjóðandi nr: 3029
www.jovinsson.is


Ég hef verið sviptur kosningarétti!

Á Íslandi eru tæplega fimm þúsund sjómenn, einhverjir eru í styttri
túrum en aðrir hafast við í löngum útiverum á sjó, allt upp í 40 daga.
Á sama tíma er kosið til stjórnlagaþings og er
utankjörfundaratkvæðagreiðsla aðeins opin í 16 daga. Það gefur því
auga leið að margir sjómenn hafa verið útilokaðir frá lýðræðislegri
þátttöku í íslensku samfélagi.

Þetta er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að á komandi
stjórnlagaþingi verður fjallað um auðlindir Íslands, sameign á þeim og
nýtingarrétt. Þar með talið fiskinn, grunnstoð atvinnu sjómanna.

Ég er einn þeirra sem er í framboði til stjórnlagaþings. Þá er ég
jafnframt einn af þeim sem hefur verið sviptur kosningarétti, þar sem
ég verð á sjó á kjördag. Veiðiferðin hófst 29. október eða tólf dögum
áður en kosningar hófust og veiðiferðinni líkur ekki fyrr en 28.
nóvember, eða daginn eftir kosningar. Því hef ég ekki einu sinni kost
á því að kjósa sjálfan mig í komandi kosningum.

Það hafa margir sjómenn sett sig í samband við mig og lýst yfir
stuðningi við framboð mitt án þess þó að geta kosið mig. Því er ljóst
að ég mun tapa mörgum atkvæðum, eingöngu fyrir vanhugsaða framkvæmd
kosninganna.

Allt tal um að jafnt vægi atkvæða verður hálf kjánalegt þegar horft er
til þess að ekki sé tryggt að allir landsmenn geti mætt á kjörstað.
Það er óviðunandi að vera útskúfaður frá lýðræðislegri þátttöku sökum
vinnu sinnar.

Nái ég kjöri til stjórnlagaþings mun ég beita mér fyrir því að allir
hafa jafnan rétt til kosninga, óháð búsetu, starfi eða fötlun.

Eyþór Jóvinsson – 3029
Á Vestfjarðamiðum
www.jovinsson.is


Framlag til Fjölskylduhjálpar og kosningabarátta fjarri Reykjavík

Þegar ég tók þá ákvörðun að gefa kost á mér til setu á stjórnlagaþingi,lagði ég 50 þúsund krónur til hliðar sem ég ætlaði að nota til að kynna framboð mitt, stefnumál og hugsjónir. Enda með öllu óþekktur í íslensku samfélagi.

 

Þegar ljóst var að frambjóðendur myndu verða 523 þá varð það einnig ljóst að kosningabaráttan myndi verða erfið. Það hefur heldur betur komið á daginn, því á meðal þessara rúmlega 500 frambjóðenda eru margir þjóðkunnir menn, atvinnubloggarar og aðrir sem hafa greiðan aðgang að fjölmiðlum. Þá hafa einnig nokkrir frambjóðendur kosið að leggja gríðarlega fjármuni í kosningabaráttuna, í von um sæti á stjórnlagaþingi.

 

Það er ljóst að mínar hóflegu 50 þúsund krónur mega sín lítils í slíkri baráttu. Því hef ég ákveðið að hætta kaupum á auglýsingum og kynningarefni og finna betri not fyrir peninginn. Því ætla ég að færa Fjölskylduhjálpinni á Akureyri 50 þúsund krónur að gjöf til aðstoðar við fátæka á Íslandi. Það er einlæg sannfæring mín um að peningarnir muni reynst þeim betur en mér.

 

Í aðdragana stjórnlagaþings hef ég orðið enn sannfærðari um að persónukjör án þátttöku stjórnmálaflokka sé slæm leið til að velja menn á Alþingi. Það er skiljanlegt að það ríki mikil reiði í garð stjórnmálaflokka og traust til þeirra og Alþingis í heild sé orðið lítið. Því eru háværar kröfur um að taka upp persónukjör. En við megum ekki láta stundarreiði byrgja okkur sýn á mikilvægu hlutverki stjórnmálaflokka.

 

Stjórnmálaflokkar eru vettvangur fyrir fólk með svipaðar skoðanir og hugsjónir, þar geta menn sameinað kraft sinn til að knýja fram mikilvæg umbótamál. Af þeim 523 sem eru í framboði til stjórnlagaþings hafa margir áþekkar skoðanir. Sjálfur hef ég fengið fjöldann allan af pósti frá öðrum frambjóðendum þar sem mér er boðið samstarf, annaðhvort á grundvelli skoðana, aldurs eða búsetu. Þar sem aðrir frambjóðendur vilja samnýta kraft okkar til að koma okkar málum á framfæri.

 

Þá kvarta margir kjósendur yfir því að það sé ógerningur að kynna sér alla frambjóðendur og fyrir hvað þeir standa. Með stjórnmálaflokkum hafa kjósendur skýrara val sem auðveldar þeim að finna það stjórnmálaafl sem rímar best við skoðanir þeirra.

 

Þá er einnig hávær umræða um að gera landið að einu kjördæmi, þar sem öll atkvæði vega jafnþungt. Að sjálfsögðu eiga öll atkvæði að hafa sama vægi en reynsla mín af kosningabaráttu í einu kjördæmi er ekki góð. Ég hef fengið fjölda boða um kynningarfundi og samkomur þar sem frambjóðendum býðst að koma og kynna sig og sín málefni. Undantekningarlaust hafa þessir fundir verið haldnir í Reykjavík. Þar sem ég er ekki staddur í Reykjavík, hef ég þurft að afþakka öll slík boð og þar með orðið af góðri og ódýrri kynningu.

 

Verður það sama upp á teningnum í komandi alþingiskosningum ef landið verður gert að einu kjördæmi? Að það verði ógjörningur að bjóða sig fram nema að hafa fasta búsetu í Reykjavík, þar sem flestir kjósendur eru?

 

Ég vil fara varlega í breytingar á stjórnarskránni. Hófsemi og skynsemi á að leiða það starf en ekki ofsi og reiði. Að kollvarpa kosningakerfinu, grunnstoð lýðræðisins, fylgir mikil ábyrgð. Vissulega er ég opinn fyrir því gera einhverjar breytingar, til að mynda með því að auka vægi útstrikana og veita kjósendum meira vald í uppröðun lista. Það má jafnvel opna að einhverju leyti persónukjör samhliða flokkskjöri eða kjósa þvert á flokka.

 

Í grunninn er það ekki kosningakerfið sem hefur brugðist okkur, heldur núverandi stjórnmálaflokkar. Nú býðst okkur einstakt tækifæri til að endurskrifa stjórnarskrána með það að leiðarljósi að skilgreina hlutverk stjórnmálaflokka, valdheimildir þeirra og verksvið.

 

 

Að gefnu tilefni skal það tekið fram að ég er ekki tengdur neinum stjórnmálaflokki og hef aldrei verið.


Einfaldar lausnir á flóknum vandamálum

Í skjóli nætur, á hátindi góðærisins 2008, læddist ég ásamt tveimur öðrum piltum, um miðbæ Reykjavíkur, vopnaður penslum og hvítri málningu. Markmiðið næturinnar var að fegra borgina, losa Laugaveginn við leiðinda veggjakrot. Við tókum málin í okkar hendur á meðan borgarbúar sváfu og borgaryfirvöld með málin í nefnd og frekari skoðun.

Verkið var hvorki erfitt né kostnaðarsamt, tveggja klukkutíma göngutúr niður Laugaveginn og á leiðinni til baka máluðum við jafnvel aðra umferð á nokkra staði.

Þetta framtak okkar vakti skiljanlega mikla athygli og fengum við mikið lof fyrir.  Borgarstjóri þurfti að svara fyrir þennan verknað daginn eftir, koma með pólitískar afsakanir hvers vegna þetta hafði ekki verið gert fyrr og lofa að bæta úr málunum, sem hann að lokum gerði. Borgin hlaut að lokum alþjóðleg verðlaun fyrir frábæran árangur við hreinsun miðborgar Reykjavíkur.

En hvað þurfti til, það þurfti bara þrjá unga menn til að sýna fram á einfaldleikann við að leysa þetta vandamál. Stjórnsýslan virðist vera einkar lagin við að flækja einföldustu mál. Unga kynslóðin í landinu er orðin leið á þessum stjórnsýsluleikjum og vill fá ákveðnari aðgerðir og framkvæmdir.

Það er síður en svo að okkur standi á sama um það samfélag sem við búum í. Við erum nú einu sinni framtíð landsins. Unga kynslóðin er að leggja grunn að því samfélagi sem við viljum búa í næstu 80 árin, grunn að því samfélagi sem að við viljum að börnin okkar alist upp í.

Við höfum nefnilega margt til málanna að leggja. Við erum snjöll við að finna nýjar leiðir og frumlegar aðferðir við að leysa þau vandamál sem til staðar eru: Einfaldar lausnir á flóknum vandamálum.

Því er mikilvægt að unga kynslóðin, með sinn ferskleika, nái kjöri til stjórnlagaþings. Þannig má semja stjórnarskrá til framtíðar, fyrir framtíðaríbúa þessa lands.

Kjósum ungt fólk til áhrifa við gerð nýrrar stjórnarskrár.

 

Höfundur er frambjóðandi nr: 3029

Eyþór Jóvinsson

www.jovinsson.is


Fjarstýri kosningabaráttunni af sjónum

Ég er einn af örfáum frambjóðendum sem er bæði ungur og frá landsbyggðinni. Það virðist allt stefna í það, sem margir óttuðust,að stjórnlagaþingið muni fyllast af miðaldra karlmönnum úr Reykjavík, að á stjórnlagaþingi muni sitja einsleitur hópur; menn með svipaðan bakgrunn, menntun og áhugamál.

Ég býð mig fram til að gefa fólki tækifæri til þess að velja úr litríkari hópi manna og kvenna. Því það er mikilvægt að á stjórnlagaþingi sitji breiður hópur fólks með ólíkan bakgrunn, menntun og starfsreynslu, fólk á öllum aldri og búsett um allt land.

Ég er hugmyndaríkur, ungur og ferskur piltur, fæddur og uppalinn á Flateyri. Ég hef jafnframt búið í Reykjavík og í Ástralíu á meðan ég stundaði nám, en ég er með BA gráðu í Arkitektúr frá Listaháskóla Íslands.

Þessa dagana stunda ég sjómennsku til að standa undir framhaldsnámi í arkitektúr. Þar sem ég er alinn upp á Flateyri hefur sjómennska og fiskvinnsla ávallt staðið mér nærri. Aðeins tíu ára gamall byrjaði ég að beita fyrir smábátana í sumarvinnu, og jafnvel árin þar á undan krækti ég mér í þorskhausa úr frystihúsinu til að skera gellurnar úr þeim en hausunum hefði annars verið hent. Gellurnar seldi ég síðan vinum og vandamönnum fyrir smáaura.

Því er sárt á sjá hvernig farið er fyrir Flateyri í dag, allur kvóti á bak og burt og enga atvinnu að hafa, það er annað en áður var þegar staðurinn blómstraði með líflegri útgerð. Kvótakerfið hefur farið úr því að verða veiðistjórnunarkerfi yfir í að verða eignarréttarkerfi.

Þessu vil ég breyta. Auðlindir Íslands skulu vera í þjóðareigu og nýttar á sjálfbæran hátt en tryggja þarf nýtingarrétt í samræmi við stærð og verðmæti hverrar auðlindar fyrir sig.

Önnur áherslumál eru meðal annars að skýra valdsvið Forseta Íslands, takmarka valdatíma ráðherra og tryggja sjálfstæði dómstólanna.

Þá eru mannréttindi mér ofarlega í huga og að persónuvernd verði tryggð. Ég vil aðskilnað ríkis og kirkju og að Ísland lýsi yfir hernaðarlegu hlutleysi sínu. Öll stefnumál mín má nálgast á www.jovinsson.is

Þessi kosningabarátta er á margan hátt áhugaverð, bæði vegna aðstæðna í samfélaginu og fjölda frambjóðenda. Þá virðist það almennt vera skoðun flestra að halda skuli auglýsingum og kostnaði í lágmarki þó einstaka frambjóðendur séu nú þegar farnir að eyða gríðarlegum fjárhæðum í auglýsingar. Sjálfur ætla ég að halda kostnaði í lágmarki og eru öll útgjöld mín opinber á síðunni minni, www.jovinsson.is,og skora ég á aðra frambjóðendur að hafa sama háttinn á.

Ég verð á sjó fram yfir kosningar og mun því reyna að notfæra mér netið til að afla stuðnings við framboð mitt. Því má segja að þennan mánuðinn mun ég bæði nota netið til að veiða fisk og atkvæði.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband