Færsluflokkur: Bloggar

Fjarstýri kosningabaráttunni af sjónum

Ég er einn af örfáum frambjóðendum sem er bæði ungur og frá landsbyggðinni. Það virðist allt stefna í það, sem margir óttuðust,að stjórnlagaþingið muni fyllast af miðaldra karlmönnum úr Reykjavík, að á stjórnlagaþingi muni sitja einsleitur hópur; menn með svipaðan bakgrunn, menntun og áhugamál.

Ég býð mig fram til að gefa fólki tækifæri til þess að velja úr litríkari hópi manna og kvenna. Því það er mikilvægt að á stjórnlagaþingi sitji breiður hópur fólks með ólíkan bakgrunn, menntun og starfsreynslu, fólk á öllum aldri og búsett um allt land.

Ég er hugmyndaríkur, ungur og ferskur piltur, fæddur og uppalinn á Flateyri. Ég hef jafnframt búið í Reykjavík og í Ástralíu á meðan ég stundaði nám, en ég er með BA gráðu í Arkitektúr frá Listaháskóla Íslands.

Þessa dagana stunda ég sjómennsku til að standa undir framhaldsnámi í arkitektúr. Þar sem ég er alinn upp á Flateyri hefur sjómennska og fiskvinnsla ávallt staðið mér nærri. Aðeins tíu ára gamall byrjaði ég að beita fyrir smábátana í sumarvinnu, og jafnvel árin þar á undan krækti ég mér í þorskhausa úr frystihúsinu til að skera gellurnar úr þeim en hausunum hefði annars verið hent. Gellurnar seldi ég síðan vinum og vandamönnum fyrir smáaura.

Því er sárt á sjá hvernig farið er fyrir Flateyri í dag, allur kvóti á bak og burt og enga atvinnu að hafa, það er annað en áður var þegar staðurinn blómstraði með líflegri útgerð. Kvótakerfið hefur farið úr því að verða veiðistjórnunarkerfi yfir í að verða eignarréttarkerfi.

Þessu vil ég breyta. Auðlindir Íslands skulu vera í þjóðareigu og nýttar á sjálfbæran hátt en tryggja þarf nýtingarrétt í samræmi við stærð og verðmæti hverrar auðlindar fyrir sig.

Önnur áherslumál eru meðal annars að skýra valdsvið Forseta Íslands, takmarka valdatíma ráðherra og tryggja sjálfstæði dómstólanna.

Þá eru mannréttindi mér ofarlega í huga og að persónuvernd verði tryggð. Ég vil aðskilnað ríkis og kirkju og að Ísland lýsi yfir hernaðarlegu hlutleysi sínu. Öll stefnumál mín má nálgast á www.jovinsson.is

Þessi kosningabarátta er á margan hátt áhugaverð, bæði vegna aðstæðna í samfélaginu og fjölda frambjóðenda. Þá virðist það almennt vera skoðun flestra að halda skuli auglýsingum og kostnaði í lágmarki þó einstaka frambjóðendur séu nú þegar farnir að eyða gríðarlegum fjárhæðum í auglýsingar. Sjálfur ætla ég að halda kostnaði í lágmarki og eru öll útgjöld mín opinber á síðunni minni, www.jovinsson.is,og skora ég á aðra frambjóðendur að hafa sama háttinn á.

Ég verð á sjó fram yfir kosningar og mun því reyna að notfæra mér netið til að afla stuðnings við framboð mitt. Því má segja að þennan mánuðinn mun ég bæði nota netið til að veiða fisk og atkvæði.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband