Sjómenn fá ekki að kjósa nema að þeir lendi í stórslysi!

Ég hef barist kröftulega fyrir því, að ég sem sjómaður og frambjóðandi til stjórnlagaþings fái að nýta kosningaréttinn minn í kosningum til stjórnlagaþings. Nú stefnir allt í að ég muni komast á kjörstað og geta sett númerið mitt 3029 efst á blað.

Hvað breyttist? – Jú, enn og aftur erum við sjómenn minntir á hversu hættulega vinnu við stundum, því það varð hræðilegt vinnuslys um borð í hjá okkur í dag og því erum við á leið í land til að koma slösuðum sjómanni undir læknishendur sem fyrst. Það er ansi dýr verðmiði á kosningarétt!

Í áhöfn eru 26 menn, en aðeins ég einn fæ leyfi til að kjósa. Við komum í land á Þingeyri, í Ísafjarðarbæ, en ég er sá eini um borð sem hef lögheimili í Ísafjarðarbæ og því sá eini sem get notað atkvæðisrétt minn. Haft var samband við sýslumann og óskað eftir því að öll áhöfnin fái að kjósa utnakjörfundar, en því var hafnað á þeim forsendum að 17 daga utankjörfundaratkvæðisgreiðslu væri lokið og að ekki hafi verið útbúin rafræn kosningaskrá.

Því verður restin af áhöfninni að horfa á eftir mér einum inn í kjörklefann að þessu sinni. Lýðræðislegur réttur minn er greiniega meiri enn þeirra.

Vinnubrögð og framkvæmd kosninganna eru Íslandi til skammar!

Það eru forrréttindi að fá að kjósa á Íslandi í dag. Því ætla ég að biðla til ykkar, kæru Íslendingar, að virða þau réttindi, mæta á kjörstað og kjósa, lýðræðisins vegna. Látið það ekki fréttast að þið ætlið ekki að nýta kosningarétt ykkar á meðan við sjómenn þurfum að koma stórslasaðir í land til að geta nýtt kosningarétt okkar!

Að lokum vil ég senda mínar bestu kveðjur til skipsfélaga míns og vona að hann jafni sig fljótt og örugglega.

Með Bestu Kveðju,
Eyþór Jóvinsson
frambjóðandi númer 3029
www.jovinsson.is


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband