Verða kosningarnar kærðar?
26.11.2010 | 14:22
Þá er það orðið ljóst, utankjörfundaratkvæðisgreiðslu er lokið, án þess að mál sjómanna hafi verið leyst eða tilraun til þess gerð. Blindum var bjargað á meðan sjómenn þurfa að sitja hjá við atkvæðisgreiðslu til stjórnlagaþings.
Það er óhjákvæmliegt að þessar kosningar verði kærðar og dæmdar ógildar vegna mannréttindabrota. Ég ætla ekki að leggja fram kæru það sem það gæti orkað tvímælis vegna framboðs míns, en ég tel allar líkur á því að aðrir sjómenn muni taka sig saman og kæra framkvæmd kosninganna og fá hana dæmda ólöglega.
Frá mínum bæjardyrum lítur málið svona út:
Í utankjörfundaratkvæðisgreiðslu til alþingiskosninga er ávalt miðað við átta vikur, á meðan í kosningum til stjórnlagaþings voru rúmar tvær vikur, að því er virðist ekki af neinni augljósri ástæðu.
Margir sjómenn eru í 30-40 daga túrum og get því ekki kosið. Þegar ég legg af stað í þá veiðiferð sem ég er í nú, voru kjörgögn ekki tilbúin og það var ekki einu sinni ljóst hverjir væru í framboði, því framboðslisti var ekki orðin klár. Því var augljóslega með öllu ómögulegt að kjósa áður en veiðiferðin hófst.
Skipstjórinn hefur reynt að fá svör um hvernig hann skuli bera sig að til að áhöfnin geti notað kosningarétt sinn, en einu svörin sem hann hefur fengið er þau að hann verði að hætta veiðum og sigla skipinu í land, þar geta sjómenn kosið. En það er hægara sagt enn gert, að loka heilum vinnustað, hætta veiðum og sigla í land, við það tapast dýrmætur tími sem nýtist ekki til veiða.
Ef við hefðum siglt í land hefði líklegast tapast heill sólahringur á veiðum með tilheyrandi tekjutapi fyrir áhöfn og útgerð. Það hefði því kostað hvern háseta um borð á bilinu 50-100 þúsund krónur í tekjutap ef ákveðið hefði verið að mæta á kjörstað. Hve góð ætli kjörsókn í landi væri ef að hver kjósandi þyrfti að greiða 50 þúsund krónur fyrir að fá að nota atkvæðisrétt sinn? Það væri kannski hægt að rétt við ríkisreksturinn með reglulegum kosningum.
Lausnin er grátlega einföld, það er að tryggja að utankjörfundaratkvæðisgreiðsla sé nægilega löng til að allir íslendingar geti tekið þátt í lýðræðislegum kosningum. Viljum við í alvöru byrja nýtt upphaf á þennan veg, að gefa ekki öllum tækifæri á að taka þátt í gerð á nýrri stjórnarskrá. Hverskonar stjórnarskrá verður það?
Þá held ég að það sé einsdæmi í vestrænu lýðræðislegusamfélagi að frambjóðandi hafi ekki rétt til að kjósa. En nái ég kjöri á stjórnlagaþings, mun ég beita mér af öllum kröftum um að allir íslendinar séu jafnir fyrir lögum, hafi sömu réttindi í hvívetna, burt séð frá fötlun, starfsvettvangi eða af öðrum ástæðum
Eyþór Jóvinsson
frambjóðandi nr: 3029
www.jovinsson.is
Flokkur: Stjórnlagaþing | Facebook
Athugasemdir
Leiðinlegt að ekki skuli hafa verið hægt að leysa þetta mál. Það er mjög líklegt að framkvæmd kosninganna verði kærð vegna þess, og svo grunar mig að úrslitin verði kærð líka, sama hver úrslitin verða.
Axel Þór Kolbeinsson, 26.11.2010 kl. 14:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.