Einfaldar lausnir á flóknum vandamálum

Í skjóli nætur, á hátindi góðærisins 2008, læddist ég ásamt tveimur öðrum piltum, um miðbæ Reykjavíkur, vopnaður penslum og hvítri málningu. Markmiðið næturinnar var að fegra borgina, losa Laugaveginn við leiðinda veggjakrot. Við tókum málin í okkar hendur á meðan borgarbúar sváfu og borgaryfirvöld með málin í nefnd og frekari skoðun.

Verkið var hvorki erfitt né kostnaðarsamt, tveggja klukkutíma göngutúr niður Laugaveginn og á leiðinni til baka máluðum við jafnvel aðra umferð á nokkra staði.

Þetta framtak okkar vakti skiljanlega mikla athygli og fengum við mikið lof fyrir.  Borgarstjóri þurfti að svara fyrir þennan verknað daginn eftir, koma með pólitískar afsakanir hvers vegna þetta hafði ekki verið gert fyrr og lofa að bæta úr málunum, sem hann að lokum gerði. Borgin hlaut að lokum alþjóðleg verðlaun fyrir frábæran árangur við hreinsun miðborgar Reykjavíkur.

En hvað þurfti til, það þurfti bara þrjá unga menn til að sýna fram á einfaldleikann við að leysa þetta vandamál. Stjórnsýslan virðist vera einkar lagin við að flækja einföldustu mál. Unga kynslóðin í landinu er orðin leið á þessum stjórnsýsluleikjum og vill fá ákveðnari aðgerðir og framkvæmdir.

Það er síður en svo að okkur standi á sama um það samfélag sem við búum í. Við erum nú einu sinni framtíð landsins. Unga kynslóðin er að leggja grunn að því samfélagi sem við viljum búa í næstu 80 árin, grunn að því samfélagi sem að við viljum að börnin okkar alist upp í.

Við höfum nefnilega margt til málanna að leggja. Við erum snjöll við að finna nýjar leiðir og frumlegar aðferðir við að leysa þau vandamál sem til staðar eru: Einfaldar lausnir á flóknum vandamálum.

Því er mikilvægt að unga kynslóðin, með sinn ferskleika, nái kjöri til stjórnlagaþings. Þannig má semja stjórnarskrá til framtíðar, fyrir framtíðaríbúa þessa lands.

Kjósum ungt fólk til áhrifa við gerð nýrrar stjórnarskrár.

 

Höfundur er frambjóðandi nr: 3029

Eyþór Jóvinsson

www.jovinsson.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband